Þó söngur okkar kórkvenna í Kvennakór Garðabæjar hafi ekki ómað um stræti og torg nú á vordögum þá hefur kórinn ekki slegið slöku við í kórstarfinu né í þeim metnaði sem hann er þekktur fyrir. Nú er undirbúningur í hámarki fyrir árlega vortónleika sem verða mánudagskvöldið 13. maí í Neskirkju í Reykjavík. Vortónleikar 13. maí í NeskirkjuStærstur hluti starfsársins hefur farið í að læra ný og spennandi kórverk. Af nógu er að taka því kórverka-biðlisti kórstjórans er ansi langur. Á vortónleikunum syngjum við kórverk frá Finnlandi, Danmörku, Lettlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Kóratónlist frá Norðurlöndunum hefur verið áberandi á efnisskrám kórsins síðastliðin ár og verður þar engin breyting á. Fjölbreytni er þó alltaf í fyrirrúmi svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Nærri helmingur verkanna eru eftir konur og er það sannur viðburður sem kórkonur eru stoltar af. Í byrjun mars síðastliðnum fengum við sænska tónlistarfræðinginn, Anci Hjulström, til að leiðbeina okkur á sérstakri æfingarhelgi. Anci er vel þekkt á Norðurlöndum fyrir sviðsuppfærslur sínar með kórum en hugmyndirfræði hennar "The Choir Body" er einstök upplifun bæði fyrir kórkonuna og kórinn sem heild. Afrakstur vinnunnar með Anci á án efa eftir að nýtast kórnum og leggur enn frekari grunn að metnaðarfullu og gefandi kórastarfi.
Eins og áður kom fram er undirbúningur í hámarki fyrir vortónleikana. Það er mikið tilhlökkunarefni að flytja þessa fjölbreyttu efnisskrá sem hefur einkar sterkan undirtón og boðskap um betri heim. |
Fréttasafn
September 2020
|