Minnum á Þorravökuna okkar á morgun fimmtudaginn 13. febrúar, kl. 20 í Kirkjuhvoli, safnaðarsal Vídalínskirkju í Garðabæ. Boðið verður upp á glæsilega dagskrá í tali og tónum og ljúfa kaffihúsastemningu. Miðar verða seldir við innganginn og er aðgangseyrir 1.800 kr. kaffi og kruðerí er innifalið í miðaverði.
Þorravaka, menningardagskrá í tali og tónum, verður haldin fimmtudaginn 13. febrúar í Kirkjuhvoli, safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ og hefst kl. 20. Menningardagskráin er orðin árlegur viðburður í menningarlífi Garðabæjar og er þetta nítjánda árið sem Kvennakór Garðabæjar og Menningar- og safnanefnd Garðabæjar standa fyrir dagskrá sem þessari. Sú hefð hefur skapast að bæjarlistamaður Garðabæjar kynnir sig og verk sín. Bæjarlistamaður í ár er rithöfundurinn Bjarni M. Bjarnason en hann á að baki ellefu skáldsögur auk níu annarra ritverka. Bjarni hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar á ferli sínum, m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin.
Ræðumaður kvöldsins er Guðrún Högnadóttir, framkvæmdastjóri FranklinCovey á Íslandi. Guðrún er þekkt fyrir skemmtileg og fræðandi erindi en auk stjórnunarstarfa og kennslu við HR hefur hún síðastliðin ár unnið sem leiðbeinandi og markþjálfi í íslensku atvinnulífi og leitt fjölda vinnustofa um árangur liðsheilda og vinnustaða. Það er alltaf gaman og gefandi að kynna efnilega nemendur úr Tónlistarskóla Garðabæjar fyrir áheyrendum Þorravöku og fylgjast með þeim stíga sín fyrstu skref á tónlistarbrautinni. Kvennakór Garðabæjar lofar fjölbreyttu og léttu lagavali en mun einnig kynna komandi afmælisár sem hefst 4. september 2020 þegar kórinn fagnar tuttugu árum frá stofnun. Þorravakan hefst kl. 20 og er aðgangseyrir 1800 kr. innifalið er kaffi og kruðerí að hætti kórkvenna. Allir eru hjartanlega velkomnir. Nú eru æfingar komnar á fullt eftir jólafrí. Eins og velunnarar okkar vita lauk haustönn með tvennum vel heppnuðum aðventutónleikum og erum við einstaklega þakklátar öllum þeim tryggu tónleikagestum sem glöddu okkur með nærveru sinni.
Þorravaka 13. febrúar Tilhlökkunin er mikil fyrir verkefnum vorannar. Má þar helst nefna Þorravöku og menningardagskrá í Kirkjuhvoli, fimmtudagskvöldið 13. febrúar en dagskráin er helguð listamönnum í Garðabæ. Vortónleikar 31. mars Það vorar snemma í hjörtum kórkvenna því árlegir vortónleikar verða rúmum mánuði fyrr en vanalega; eða þriðjudaginn 31. mars. Landsmót Gígjunnar 7. - 9. maí Starfsárinu lýkur svo með þátttöku í Landsmóti Gígjunnar, landssambandi íslenskra kvennakóra, sem haldið verður 7. - 9. maí í Hörpu og Laugardalshöll. Það er því ljóst að spennandi vorönn er framundan og að ekki verður setið auðum höndum frekar en fyrri daginn. Við vonum að sem flestir geti notið ofangreindra viðburða með okkur, það sannarlega eflir okkar skemmtilega starf og hvetur okkur áfram til góðra verka. Hlökkum til söngs og samveru með hækkandi sól 😊 Hinn árlegi IKEA jólasöngur okkar var um nýliðna helgi fyrir gesti og gangandi. Ekki skemmdi fyrir þessi fíni hljómburður í anddyri verslunarinnar. Á fimmtudaginn næsta heimsækjum við heimilisfólkið á hjúkrunarheimilinu Ísafold í Garðabæ og eigum þar notalega stund og syngjum uppáhalds jólalögin okkar.
Okkur langar til að deila með ykkur þessum fallegu og skemmtilegu augnablikum frá aðventutónleikum okkar í Guðríðarkirkju. Heiðurinn af myndum á Gunnar Svanberg ljósmyndari. Góð stemning og hlýjar undirtekir tónleikagesta gerðu stundina ógleymanlega. Hljóðfæraleikarar voru þær Elísabet Waage, hörpuleikari og Sólveig Anna Jónsdóttir, píanóleikari kórsins en einnig lék Birgitta Feldís Bjarkardóttir, nemandi í flautuleik við Tónlistarskóla Garðabæjar, með í nokkrum lögum. Eftir tónleikana var öllum boðið upp á heitt súkkulaði og smákökur. Við þökkum þeim fjölmörgu sem nutu tónleikanna með okkur kærlega fyrir komuna og óskum þeim og landsmönnum öllum notalegrar aðventu, gleði og friðsæld á jólum.
Við viljum þakka öllum þeim fjölmörgu tónleikagestum sem mættu á tvenna aðventutónleika okkar í Guðríðarkirkju kærlega fyrir komuna. Stemmning og hlýjar undirtekir áheyrenda gerðu þessa stund ógleymanlega og er þakklæti efst í huga okkar allra. Það má segja að máttur söngsins er ótvíræður þar sem alhvít jörð blasti við höfuðborgarbúum í morgun eftir að kórkonur kvöddu tónleikagesti í gærkveldi með fallega jólalaginu Það snjóar. Megi aðventan umvefja okkur öll. Ljósmyndari: Gunnar Svanberg
„Eftirvæntingu í augum má sjá, allt er eitthvað svo spennandi í dag“ segir í fallegu jólalagi. Ætli það sé ekki einmitt sú eftirvænting og jólastemning sem við kórkonur upplifum þessa dagana. Tvennir aðventutónleikar eru framundan í Guðríðarkirkju, 2. og 3. desember, og örfáir miðar eftir á þá síðari. Í morgun var formleg lokaæfing og klæddumst við allar jólapeysum sem jók enn frekar á jólagleðina.
|
Fréttasafn
June 2021
|